Ferill 228. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 255  —  228. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Geri launamaður eða sá sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi samning um tryggingavernd á grundvelli iðgjalds sem hann ákvarðar og hefur beinan ráðstöfunarrétt yfir, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyris­sjóða, skal almennt tryggingagjald lækka um allt að 0,2% af gjaldstofni og sá hluti trygg­ingagjaldsins nýttur sem iðgjaldshluti launagreiðanda á móti iðgjaldshluta launamanns. Frá­dráttarbær iðgjaldshluti launagreiðanda skal vera 10% af iðgjaldshluta launamanns, þó aldrei hærri en 0,2% af gjaldstofni tryggingagjalds.
    Skilyrði lækkunar skv. 8. mgr. er að mótframlag sé innt af hendi um leið og sparnaður er dreginn af launum og ráðstafað til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyris­réttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Við skil á staðgreiðslu tryggingagjalds, sbr. IV. kafla, skal taka tillit til lækkunar skv. 8. mgr. Um uppgjör og álagningu gilda ákvæði V. kafla.
    Maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og ekki er háður skyldu til að skila launaframtali, sbr. 3. mgr. 12. gr., skal gera grein fyrir frádráttarbærum iðgjaldshluta á sérstöku eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 129/1997,
um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
2. gr.

    Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Iðgjaldi samkvæmt ákvörðun launamanns eða þess sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal varið til aukningar lífeyrisréttinda skv. II. eða III. kafla.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Lífeyrissjóðum og aðilum skv. 3. mgr. 8. gr. er skylt að tekjuári liðnu að gera ríkis­skattstjóra grein fyrir því iðgjaldi til öflunar lífeyrisréttinda sem greitt hefur verið til þeirra fyrir hvern rétthafa á því ári.
     b.      Við 3. mgr. bætist: og aðila skv. 3. mgr. 8. gr.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Hver sá sem er skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði samkvæmt lögum þessum og er framtalsskyldur samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt skal í framtali sínu eða á annan hátt er ríkisskattstjóri ákveður tilgreina þau iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda sem hann hefur greitt á árinu og þá lífeyrissjóði og aðila skv. 3. mgr. 8. gr. sem hann hefur greitt til.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í þessu frumvarpi er lögð til breyting á lögum um tryggingagjald og lögum um skyldu­tryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Í I. kafla frumvarpsins er lögð til breyting á lögum um tryggingagjald þess efnis að launa­greiðendur eða menn sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi geti haldið eftir allt að 0,2% af gjaldstofni almenna tryggingagjaldsins ef sá hluti tryggingagjaldsins er lagður fram sem mótframlag við iðgjaldshluta launamanns vegna lífeyrissparnaðar. Skilyrði fyrir lækkun tryggingagjalds er að um sé að ræða aukningu á lífeyrisréttindum skv. II. og III. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem byggist á ákvörðun launamanns og að mótframlagið sé innt af hendi um leið og sparnaður er dreginn af launum og ráðstafað til vörsluaðila lífeyrisréttinda.
    Samhliða framangreindum breytingum á tryggingagjaldinu er horfið frá þeim breytingum, sem voru kynntar í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, að lækka atvinnutryggingagjaldið úr 1,15% í 1%. Þrátt fyrir minni fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna minnkandi atvinnuleysis er nú lagt til að atvinnutryggingagjaldið verði óbreytt og 0,15% af gjaldstofni fari til aukningar á innstæðufé sjóðsins. Miðað við forsendur fjárlaga bætir þetta afkomu Atvinnuleysistryggingasjóðs um 450 m.kr. á næsta ári, sem er sambærileg fjárhæð og áætluð skattalækkun samkvæmt þessu frumvarpi. Samanlagt hafa breytingarnar því ekki áhrif á heildarafkomu ríkissjóðs.
    Tilgangur þessara breytinga er m.a. að auka þjóðhagslegan sparnað. Einnig er æskilegt að lífeyrissparnaður aukist frá því sem nú er til að menn eigi almennt rétt á lífeyri sem er í æskilegu hlutfalli við þau laun sem þeir hafa haft yfir starfsævina. Í desember 1997 var gerð breyting á lögum um lífeyrissjóði með lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyris­réttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lögin skylda alla launamenn og þá sem stunda sjálfstæða starfsemi að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára aldri til 70 ára aldurs. Iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda má ekki vera lægra en 10% af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Lögin skilgreina 56% af meðaliðgjaldsstofni, miðað við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds og ævilangan ellilífeyri frá ellilífeyrisaldri, sem lágmarkslífeyrisréttindi. Þetta þýðir að ef heildarlaun hafa verið 100.000 kr. á mánuði í 40 ár verður lífeyrissjóður að greiða ellilíf­eyrisþeganum að minnsta kosti 56.000 kr. á mánuði frá ellilífeyrisaldri, eins og hann er til­greindur í samþykktum sjóðsins, og til æviloka sjóðfélagans. Þykir 56% viðmið lágt og telja margir að eðlilegra sé að miða við 70–80% af lokalaunum. Til að ná þessu markmiði þyrftu iðgjöld til lífeyrissjóða ásamt lífeyrissparnaði að vera mun hærri eða á bilinu 15–20% af launum en ekki 10–12%, eins og lög gera nú ráð fyrir. Miðað við lífeyriskerfið eins og það er byggt upp nú og aldurssamsetningu þjóðarinnar er langlíklegast að landsmenn verði fjarri markmiðinu um 70–80% tekjur af lokalaunum í fyrirsjáanlegri framtíð nema þeir auki lífeyr­issparnað. Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þáttur í því að nálgast ofan­greint markmið.
    Með breytingum sem gerðar voru á síðasta haustþingi á A-lið 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, voru rýmkaðar heimildir einstaklinga til skattfrádráttar vegna lífeyrisiðgjalda. Launamönnum og þeim sem vinna við sjálfstæða starfsemi verður frá og með 1. janúar 1999 heimilt að lækka skattskyldar tekjur sínar um allt að 2% verji þeir fjárhæðinni til lífeyrissparnaðar samkvæmt lögum um skyldutryggingu líf­eyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þannig verður einstaklingum heimilað að draga frá tekjum, til viðbótar við 4% hámarkiðgjaldsfrádráttar til öflunar lífeyrisréttinda, allt að 2% af iðgjaldsstofni vegna iðgjalda sem greidd eru vegna aukins lífeyrissparnaðar. Viðbótar­frádrátturinn er skilyrtur með þeim hætti að iðgjaldinu sé varið til aukningar lífeyrisréttinda skv. II. og III. kafla laga nr. 129/1997 og iðgjöldin séu greidd reglulega til viðurkenndra að­ila sem auk lífeyrissjóða geta verið líftryggingafélög, bankar, sparisjóðir og verðbréfafyrir­tæki.
    Lagt er til að launagreiðendur og sjálfstæðir atvinnurekendur geti haldið eftir allt að 0,2% af gjaldstofni almenna tryggingagjaldsins, hvort sem er í almennum gjaldflokki eða sérstök­um gjaldflokki, og greitt þann hluta þess í stað sem mótframlag vegna viðbótarlífeyrissparn­aðar. Mótframlagið er til þess fallið að auka áhuga og fjárhagslegan ávinning einstaklinga af sparnaðinum. Mótframlagið er þá hugsað sem 1/10 fjárhæðarinnar sem launamaður leggur til hliðar í lífeyrissparnað. Það ætti að tryggja víðtæka þátttöku í lífeyrissparnaðnum og þykir eðlilegt að draga það frá tryggingagjaldinu þar sem sparnaðurinn mun ótvírætt létta á almannatryggingakerfinu í framtíðinni.
    Ef launamaður hefur gert samning um viðbótarlífeyrissparnað við vörsluaðila lífeyris­réttinda skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 og óskar eftir því við launagreiðanda að hann leggi til mótframlag sem nemur allt að 0,2% af gjaldstofni almenna tryggingagjaldsins er launagreiðanda skylt að verða við þeirri beiðni launamanns. Í 7. gr. laga nr. 129/1997 er launagreiðanda skylt að innheimta og standa skil á iðgjaldi til þess aðila sem starfsmaður hefur tilgreint, sbr. 3. mgr. 8. gr. Í ákvæði 7. gr. er tryggt að starfsmenn geti almennt falið launagreiðanda að draga lífeyrissparnaðinn frá útborguðum launum og standa skil á honum.
    Með breytingum þeim sem lagðar eru til í frumvarpinu gæti árlegur lífeyrissparnaður aukist um 5 milljarða króna. Allt að 0,2% frádráttur frá almenna tryggingagjaldinu miðast við þá forsendu að 75% heildarinnar nýti sér réttinn til fulls, sem samsvara 450 milljónum króna árlega. Miðað við þá forsendu og 2% viðbótarlífeyrissparnað samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga mætti ná um 5 milljarða króna viðbótarlífeyrissparnaði árlega.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í þessari grein er lagt til að almennt tryggingagjald, hvort sem er í almennum gjaldflokki eða sérstökum gjaldflokki, lækki um allt að 0,2% af gjaldstofni enda verði þeim hluta varið sem mótframlag við lífeyrissparnað launamanns á grundvelli II. og III. kafla laga nr. 129/1997. Launagreiðanda verður skylt að lækka tryggingagjaldið um allt að 0,2% af gjaldstofni ef launamaður óskar eftir því með vísan til samnings um viðbótartryggingavernd við vörslu­aðila lífeyrisréttinda skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, á grundvelli iðgjalds sem hann ákvarðar og hefur beinan ráðstöfunarrétt yfir. Hafi launamaður með öðrum orðum samning um viðbótarlífeyrissparnað og óskar eftir því við launagreiðanda að hann leggi til mótfram­lag skal launagreiðandi verða við þeirri beiðni og lækka trygginagjaldið um allt að 0,2% af gjaldstofni þess og láta þann hluta renna sem mótframlag sitt inn á sparnaðarreikning launa­mannsins. Allt að 0,2% af gjaldstofni tryggingagjalds hefur þá þýðingu að mótframlag launagreiðanda ræðst af því hversu hátt hlutfall af iðgjaldsstofni launamaður greiðir sem iðgjald í viðbótarlífeyrissparnað. Ef sparnaðurinn er aðeins 1% af iðgjaldsstofni skal trygg­ingagjaldið lækka um 0,1% af gjaldstofni þess. Mótframlag launagreiðanda er því ávallt bundið við að vera 10% af sparnaði launamannsins. Þannig er tryggt jafnræði á milli launa­manna, þ.e. lögbundið mótframlag er ávallt ákveðið hlutfall af sparnaði launamanns. Á sama hátt er sett þak á hversu mikið launagreiðandi getur lækkað tryggingagjaldið og greitt sem mótframlag vegna sparnaðar launamanns. Lækkun tryggingagjalds vegna mótframlags launa­greiðanda getur aldrei orðið meiri en 0,2% af gjaldstofni tryggingagjalds þó að lífeyrissparn­aður launamanns sé umfram 2% af iðgjaldsstofni.
    Í 2. mgr. er sett það skilyrði fyrir lækkun tryggingagjalds að mótframlagið sé innt af hendi um leið og sparnaður er dreginn af launum launamanns og ráðstafað til vörsluaðila lífeyris­réttinda. Þannig er tryggt að mótframlag greiðist einungis í þeim tilvikum þegar sparað er og í réttu hlutfalli við lífeyrissparnað launamanns.
    Með 3. mgr. er stefnt að því að tilhögun hinna breyttu reglna um tryggingagjald verði sem einföldust og skýrust í framkvæmd. Lagt er til að lækkunin skili sér strax í staðgreiðslu og uppgjör og álagning falli að því kerfi sem fyrir hendi er. Kemur þá fram á launaframtali reiknað tryggingagjald af heildarstofni launa og hversu háum fjárhæðum var varið sem frá­dráttarbærum iðgjaldshluta launagreiðenda. Ætti þessi aðferð að valda sem minnstri röskun á launabókhaldi og greiðslufyrirkomulagi launatengdra gjalda hjá launagreiðendum.
    Skv. 3. mgr. 12. gr. laganna er stofn tryggingagjalds manna sem stunda eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi reiknað endurgjald, sbr. 3. mgr. 6. gr. Er þessum aðilum eigi skylt að skila launaframtali vegna þessa. Í 4. mgr. frumvarpsins er því lagt til að þeim sem inna af hendi iðgjöld vegna viðbótarlífeyrissparnaðar verði gert að skila sérstöku eyðu­blaði þar sem tilgreindur er frádráttarbær iðgjaldshluti launagreiðenda. Ef eyðublaðinu er ekki skilað má gera ráð fyrir að lagt verði á tryggingagjald miðað við þá fjárhæð sem færð er á framtal skv. 3. mgr. 6. gr., þ.e. álagningin kæmi til framkvæmdar að fullu án lækkunar skv. 1. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Hér er bætt við 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nýju ákvæði er tekur til iðgjalda samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga sem varið er til aukningar lífeyrisréttinda skv. II. og III. kafla. Með þessari breytingu er lagt til að lögin taki jafnframt til þeirra tilvika þegar einstaklingur ákveður að auka við lífeyrisréttindi sín án þess að kveðið sé á um það í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambæri­legum hætti. Getur einstaklingur þá ákvarðaða einhliða hvert iðgjald hans er sem hann leggur til aukningar lífeyrissparnaðar. Eins og fram kemur í frumvarpstextanum er hér eingöngu um að ræða þau tilvik þegar um er að ræða aukningu á lífeyrisréttindum skv. II. og III. kafla laganna.
    Með breytingunni eru einstaklingum tryggð þau réttindi og skilyrði sem er að finna í lög­unum hvað viðkemur lífeyrissparnaði, svo sem færsla á greiðslum án sérstaks kostnaðarauka fyrir sjóðfélagann, skylda launagreiðanda að halda sparnaði eftir af launum sjóðfélaga o.s.frv. Hafi launamaður gert samning við vörsluaðila lífeyrisréttinda skv. 3. mgr. 8. gr. um aukningu lífeyrisréttinda getur hann óskað eftir því við launagreiðanda sinn sem yrði skylt samkvæmt breytingunni að verða við því að halda sparnaðinum eftir af launum launamanns­ins og skila honum til vörsluaðilans.

Um 3. gr.

    Hér er kveðið á um að þeir aðilar sem taka við greiðslum vegna lífeyrisréttinda og launa­greiðendur geri árlega grein fyrir iðgjaldi sem greitt er til þeirra fyrir hvern einstakling á því ári. Tilgangurinn er að tryggja að einstaklingar fái notið frádráttar frá tekjuskattsstofni sem þeim hefur verið veittur í 5. og 6. tölulið A-liðar 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 113/1990,
um tryggingagjald, með síðari breytingum, og um breyting á lögum nr. 129/1997,
um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

    Frumvarp þetta snýr að breytingum á lögum um tryggingagjald, þar sem launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi manni er skylt að lækka almenna tryggingagjaldið um allt að 0,2% af gjaldstofni og leggja fram sem mótframlag við viðbótarlífeyrissparnað launamanns. Ekki er talið að breytingin hafi mikil áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Ljóst er að gefa þarf út nýtt launa­framtal og gera smávægilegar breytingar á álagningarkerfi tryggingagjalds. Kostnaður vegna þessa er áætlaður 0,2–0,3 m.kr.